vendredi 29 juin 2012

iceland

Íslenska skáklandsliðið tekur um þessar mundir þátt á Evrópumótinu í Grikklandi. Að sex umferðum loknum er árangurinn hinn ágætasti:

Sigur hefur unnist á Lúxemborg, Makedóníu og Svartfjallalandi. Tap gegn Slóveníu, Georgíu og Spáni.
Gegn Spánverjum vann Hjörvar Steinn Grétarsson einn stærsta sigur Íslendings á þessu árþúsundi þegar fyrrum Lettinn Alexei Shirov lá í valnum eftir flókna skák. Hinn átján ára gamli nemandi Verslunarskólans er ein helsta vonarstjarna Íslendinga; stórmeistaraáfangi er í augsýn ef happadísirnar verða með honum á lokaspretti mótsins.

Þrjár umferðir eru eftir og í 7. umferð eru andstæðingarnir hinir harðskeyttu Serbar. Sigur í þeirri viðureign myndi fleyta landsliðinu vel fram yfir miðju og gefa kost á góðu lokasæti. Þrjátíuogátta sveitir tefla á mótinu og topp 20 yrði frábær árangur.

Nú reynir á þá Þorfinnssyni, Danielsen, Hjörvar Stein og liðsstjórann að sýna styrk sinn. Liðsstjórinn Helgi Ólafsson skipti sjálfum sér inn á um mitt mót og tefldi þrjár skákir í röð, og niðurstaðan; 100% árangur!
Hætta ber leik þá er hæst stendur og skipti Helgi sér út úr liðinu og sýndi þannig liðsmönnum mikið traust sem var þakkað með góðum sigri á Makedóníu.


Nansý lék fyrsta leikinn fyrir Hou Yifan: Lokaumferð N1 Reykjavíkurskákmótsins stendur yfir

DSC_0228 Nansý Davíðsdóttir, 10 ára Íslandsmeistari barna lék fyrsta leikinn fyrir Hou Yifan heimsmeistara í úrslitaskák hennar við Fabiano Caruana í lokaumferð N1 Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu.
Þóra Arnórsdóttir sjónvarpskona stjórnaði setningarathöfn lokaumferðarinnar og sagði að skák Yifan og Caruana yrði upp á ,,líf og dauða".
DSC_0195 Reikna má með harðri baráttu á efstu borðum. Caruana er einn efstur með 7 vinninga af 8 mögulegum, en Yifan heimsmeistari, Sokolov, Navara og Avrukh hafa 6½.
Sokolov ætlar sér sigur með hvítu gegn Avrukh, en Navara hefur svart gegn Cheparinov.
Íslensku stórmeistararnir Héðinn Steingrímsson og Henrik Danielsen eru í hópi níu skákmanna sem hafa 6 vinninga. Héðinn teflir gegn Júrí Kryvoruchko, og Henrik við Tyrkjann Ipatov.
Þóra Arnórsdóttir mun í kvöld birta stórfróðlegt og skemmtilegt viðtal við bandaríska stórmeistarann Maurice Ashley, sem er meðal keppenda á N1 Reykjavíkurskákmótinu. Ashley hefur unnið merkilegt starf við útbreiðslu skáklistarinnar í Bandaríkjunum, og gerði skólalið frá Harlem að Bandaríkjameisturum.




Uppskeruhátíð Skákakademíunnar í Ráðhúsinu á morgun: Komið og teflið við krakkana!

5. Við erum ein fjölskylda! Forsetafrúin Dorrit Moussaieff og forseta-frambjóðendurnir Andrea Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir eru meðal þeirra sem taka áskorun skákkrakkanna um að tefla á Uppskeruhátíð Skákakademíu Reykjavíkur á morgun, sunnudag, í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Hátíðin hefst klukkan 12 og eru skákáhugamenn á öllum aldri hvattir til að mæta og taka þátt í gleðinni.
Markmið krakkanna er að tefla 200 skákir og safna áheitum til stuðnings æskulýðsstarfinu í skák. Jafnframt verður haldið Skákuppboð aldarinnar, boðið upp á skákkennslu fyrir börn og byrjendur og stórmeistarar tefla fjöltefli við gesti.
Dagskrá Uppskeruhátíðarinnar í Ráðhúsinu:
12:00 Setningarávarp Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Skákmaraþonið hefst.
12:30 Oliver Aron Jóhannesson og Dagur Ragnarsson tefla einvígi um Landsmótsmeistaratitilinn í skák.
13:00 Skákflóamarkaður opnar.
14:00 Friðrik Ólafsson teflir fjöltefli við gesti. Allir velkomnir.
15:00 Skákuppboð aldarinnar. Hamarinn í höndum Jóhannesar Kristjánssonar.
17:00 Jóhann Hjartarson stórmeistari teflir fjöltefli við gesti í Ráðhúsinu.
18:00 Skákmaraþoni lýkur.
Allan daginn verður svo skákkennsluhorn þar sem börn (og fullorðnir) geta lært grundvallaratriði skáklistarinnar af reyndum kennurum.